Um Vefinn

Dansgleði er fyrir alla, einstaklinga, pör, hópa, afa, ömmur og barnabörnin. Góð leiðsögn er um fyrstu skrefin í pardansi, hvort sem er í faðmi ástvinar eða félaga. Frumspor margra dansa eru kennd,t.a.m. salsa, jive, social foxtrot, skottís, cha cha cha og brúðarvals. Einnig er að finna úrval dansa fyrir hópa og einstaklinga sem vilja spreyta sig í djassdansi, ballett, diskó, vikivaka, grískum dönsum og mörgum fleiri dönsum. Dansar og leikir með fjölskyldunni, börnum og barnabörnum eru útskýrðir á lifandi hátt, t.d. skósveinadansinn, tarsandansinn og sacha. Loks geta skapandi einstaklingar stuðst við frábæra lýsingu á því hvernig maður býr til sinn eigin dans. Þessi vefur og bókin er einstaklega góður leiðarvísir fyrir kennara á öllum skólastigum, sem vilja miðla dansgleði – eða jafnvel nota dans til að kenna íslensku og stærðfræði!

 

Guðbjörg Arnardóttir, höfundur bókarinnar, hefur kennt listdans í þrjá áratugi. Hún útskrifaðist frá Danshögskolan í Stokkhólmi í danskennsluréttindum og sérhæfði sig í barnadansi, nútímadansi og ballett. Árið 2001 útskrifaðist hún frá KHÍ og lauk B.ED. –gráðu í grunnskólakennarafræði.Tveimur árum síðar tók hún diploma í uppeldis- og menntunarfræði tvítyngdra barna. Guðbjörg stofnaði Listdansskóla Hafnarfjarðar árið 1994.